BÍLLINN

allt um bíla

FOCUS rS

Saltar samekppnina

MYNDIR:

Copyright © Tryggvi Þormóðsson

Reynsluakstur: Ford Focus RS 4wd

Umboð: Brimborg

www.brimborg.is

Verð reynsluakstursbíls - kr. 6.990.000,-

Njáll gunnlaugsson

Njáll Gunnlaugsson er fæddur 1967 og lauk ökukennaranámi frá Kennaraháskólanum árið 1998. Njáll kennir bæði á bíl og mótorhjól og hefur mikla akstursreynslu, meðal annars í gegnum starf sitt sem bílablaðamaður í áratug.

Ytra útlit er flott en frekar hefðbundið og ekki mikil breyting frá fyrri bíl.

sportbíll ársins

Þriðja kynslóð Ford Focus RS hefur vakið óskipta athygli og hlotið mörg verðlaun. Má þar meðal annars nefna Bíl ársins hjá Top Gear og Bandalag Íslenskra Bílablaðamanna (BÍBB) valdi hann fyrir stuttu Sportbíl ársins svo eitthvað sé nefnt. Það er margt sem gerir Focus RS sérstakan en kannski þó síst útlitið sem er engin stökkbreyting frá öðrum minna útbúnum Focus bílum. Jú, að vísu eru stór loftinntök framan á bílnum og stórt, tvöfalt pústkerfi að aftan ásamt vinddreifurum. Aftast á toppnum er gerðarleg vindskeið og 19 tommu álfelgur með blámáluðum Brembo bremsum gefa til kynna hvað undir býr.

Recaro sportsæti staðalbúnaður

Innréttingin er eins og í flestum öðrum Ford Focus bílum en með sportlegum útfærslum, eins og bláum ísaumi, áli í pedulum og blárri díóðulýsingu. Það er líka þar sem að helstu gallar bílsins koma í ljós. Recaro sportsætin eru að vísu staðalbúnaður en passa aðeins þeim vel sem eru af réttri stærð (eins og undirritaður) og stærri einstaklingar ættu erfitt með að nota þau. Einnig er handfang fyrir framhurð mjög aftarlega sem þýðir að þegar búið er að opna hana til fulls er langt að teygja sig í það þar sem ekkert handfang er nálægt opnaranum.

Flott Recaro sætin eru eins og sniðin fyrir meðalmanninn en ekki meira en það.

Vélin er sama 2,3 lítra vélin og í Ford Mustang en 39 hestöflum öflugri og skilar alls 345 hrossum.

4,7 sekúndur í hundraðið

Vélin í Ford Focus RS er í grunninn sama 2,3 lítra Ecoboost vélin og í nýjasta Mustang sportbílnum. Vélin í Mustang er aðeins 306 hestöfl en í RS-inum er hún 39 hestöflum öflugri. Það þýðið að Ford Focus er 345 hestöfl og togið 439 Newtonmetrar milli 2000-4500 snúninga, en vélin getur einnig fegnið svokallað “overboost” í 18 sekúndur og þá hækkar togið í 470 Newtonmetra. Með þetta afl og fjórhjóladrifið er bíllinn aðeins 4,7 sekúndur í hundraðið. Rúsínan í pylsuendanum er nefnilega fjórhjóladrifið, sem er í fyrsta skipti í Ford Focus.

fullkomið fjórhjóladrif

Tæknimenn Ford vildu ná fullum tökum á fjórhjóladrifinu og þeim tókst það svo sannarlega. Kerfið er kallað GKN og notar tvær kúplingar til að dreifa átakinu til afturhjólanna. Hægt er að senda allt átakið á annað afturhjólið ef því er að skipta. Fremri kúplingin sendir aflið til afturhjólanna en sú aftari skiptir aflinu milli fram- og afturáss. Þessu er stjórnað af aksturstölvu sem sendir stjórnboð 100 sinnum á sekúndu. Þetta þýðir einfaldlega að bíllinn hagar sér eins og afturhjóladrifinn bíll með gripi fjórhjóladrifsins.

Að keyra þennan bil í Drift stillingu er eins og að ganga í barndóm.

Velja má um 4 akstursstillingar

Að hafa handfangið á þessum stað þýðir að það þarf að teygja sig ansi mikið eins og sjá má.

bremsur af stærri gerðinni

Það er óhætt að segja að Focus RS er stinnur í akstri, sérstaklega þegar hann er stilltur á brautarakstur en þá verða dempararnir allt að 40% stífari. Bremsurnar eru líka af stærri gerðinni en að framan eru 350 mm diskar með Brembo bremsum. Hægt er að velja um fjórar akstursstillingar, Normal, Sport, Track og Drift. Já, þar sem flestir bílar eru með skrikvörn er þessi bíll með skrikbúnað. Í Drift stillingunni fær bíllinn svo sannarlega að renna til afturendanum en það gerir hann svo sem í hvaða akstursstillingu sem er. Það þarf bara að kitla pinnan svolítið á leið inní beygju og bíllinn skellir sér á hlið í beygjuna. Svo þarf bara að hafa úthald í að halda bílnum á réttu skriði með mátulega mikilli gjöf og þar sem að fjórhjóladrifið er svo snilldarlega útfært er það auðveldara en margur heldur.

kraftmikil ánægja

Það er þó ekki þar með sagt að hver sem er gæti tekið beygjurnar þversum á þessum bíl og aðeins skyldi nota þessa stillingu á stað sem það á við, eins og við gerðum með góðum árangri á Kvartmílubrautinni. Það er svo í Track stillingunni sem að blaðinu er snúið við og bíllinn gerir það sem hann getur til að sletta ekki til afturendanum til að ná sem bestum brautartíma. Það er í raun og veru jafn skemmtilegt að keyra bílinn í Track stillingunni og njóta hröðuninnar og gripsins.

Vélin er byggð á ECO boost tækninni frá Ford.

Loftsían er aðgengileg fyrir nokkrar ástæður, eins og auðveldari skipti og einnig aðgengi fyrir loft við mælingu í hestaflabekk.

ótrúlegt verð

Grunnverð nýs Ford Focus RS er aðeins 6.990.000 kr sem er hreint ótrúlegt miðað við hvað er verið að bjóða. Flestir keppinautar hans eru ekki einu sinni með fjórhjóladrifi en eru þó boðnir á svipuðu verði. Meðal þeirra helstu má telja VW Golf R, Renault Megané Renaultsport 275 Trophy-R (þvílík langloka sem það nafn er), Honda Civic Type R, BMW M135i og Audi S3 Sportback. Verð á flestum þessum bílum er ekki að finna á heimasíðum umboðanna einu sinni sem lýsir furðulega litlum áhuga þeirra á að selja bíla eins og þessa.

saltar samkeppnina

Það er helst að Hekla standi sig í samkeppninni og býður fram Golf R á 7.230.000 kr sem einnig er hægt að fá í ódýrari Clubsport útgáfu á 6.550.000 kr. Audi S3 Sportback er svo boðinn á 7.990.000 kr en tekið skal fram að báðir Heklubílarnir eru aðeins með framdrifi. Það að hægt sé að kaupa fimm dyra bíl sem getur þóst vera fjölskyldubíll (þegar búið er að setja hann í Normal akstursstillinguna þar sem slökkt er á pústsprengingunum) með þetta afl, upptak og aksturseiginleika er eiginlega ótrúlegt því að búast mætti við að eyða þyrfti helmingi meiri upphæð til að fá eitthvað líkt þeirri akstursánægju sem fæst út úr þessum bíl.

Fallegur , hefðbundinn Focus með rándýr í vélarrúminu.

tækniupplýsingar

VERÐ

Kr. 6.990.000,-

VÉL

2261 rsm 4ra strokka með forþjöppu

HESTÖFL

345 við 6000 sn.

NEWTONMETRAR

439 við 2000-4500 sn.

0-100 K Á KLUKKUSTUND

4,7 sek.

HÁMARKSHRAÐI

266 km

CO2

175 g/km

EIGIN ÞYNGD

1599 kg

L/B/H

4390/1823/1472 mm

EYÐSLA

7,7 l/100 km

kalt mat

Akstur

Eyðsla

Sæti

Pláss afturí

Verð

Niðurstaða:

78/100

Samband við söludeild Brimborgar  · 515 7000 · brimborg.is@brimborg.is

Skoða bækling FOCUS

www.brimborg.is

Umboð: Brimborg

location_on

Adobe Systems, Inc. 345 Park Ave. San Jose, CA 95110-2704

phone

+1.343.444.4444

+1.343.444.5555

email

info@website.com

sales@website.com